Það fór mikil hugsun í allt sem tengist Sky Lagoon, hvort heldur sem það snýr að jarðhitavatninu, staðsetningunni, eða sjö skrefa meðferðinni. Upplifunin sjálf er sérstaklega veigamikil og við hönnun hennar var á ýmsa vegu ákveðið að heiðra og varðveita íslenskar hefðir, arfleifð og sögu.

Hér verður tekið fyrir þrennt sem finna má í Sky Lagoon og sú sögulegu þýðing sem býr þar að baki.

Torfbæir

Landnemar á Íslandi höfðu með sér byggingarhefð og aðferðir sem nýttust við óblíðar aðstæður landsins. Ein þeirra felur í sér að skera hluta af þungu torfi og raða því þétt til að mynda góða einangrun fyrir híbýli. Þessi aðferð var nýtt til að byggja torfbæi eins og við þekkjum þá í dag. 

Torfbæirnir veittu yl og skjól gegn náttúruöflunum og gerðu Íslendingum kleift að þreyja þorrann á þessari afskekktu eyju í öllum veðrum og vindum. Þó svo að torfbæirnir hafi á endanum vikið fyrir nútímalegum timburhúsum eiga þeir sér stað í hjarta Íslendinga sem táknmynd menningar okkar öldum saman. 

Sem virðingarvott við þetta tímabil í sögu Íslendinga blésum við nýju lífi í hina fornu byggingaraðferð og reistum okkar eigin torfbæ í Sky Lagoon sem veitir gestum yl og skjól rétt eins og þeir gerðu forðum.

Klömbruhleðsla

Torfveggurinn okkar er svokölluð klömbruhleðsla. Samkvæmt Guðjóni S. Kristinssyni, sérfræðingi okkar í torfhleðslu, var íslenska torfið sérstaklega vel til þess fallið að byggja endingargóð húsakynni í loftslaginu sem hér ríkir og hin fjölmörgu öskulög í jarðveginum gerðu þökurnar þéttar í sér og nánast eins sterkar og steypu.

Orðið klambra merkir þrengsli eða eitthvað sem liggur þétt saman rétt eins og torfið sem sérfræðingurinn okkar hefur lagt með fiskibeinamynstri í torfveggnum. Á þennan hátt notuðu landnemarnir, og síðar stækkandi íslensk þjóð, jörðina til að byggja húsakynni sín. Við höfum nýtt okkur þessa hefð við klömbruhleðsluna okkar, stóra torfvegginn sem blasir við þegar rennt er í hlaðið við Sky Lagoon.

Group of workers stand together up against a turf wall.

Mynd: Guðjón S. Kristinsson og aðstoðarmenn hans fyrir framan torfvegginn.

Kalda kerið

Það er ekkert launungarmál að kalda kerið fyrir framan torfbæinn er hannað í anda Snorralaugar í Reykholti. Hún hefur sem ein elsta náttúrulaug landsins verið innblástur að fjölmörgum öðrum laugum víðs vegar um landið svo öldum skiptir. Snorralaug dregur nafn sitt af skáldinu, goðanum og sagnaritaranum Snorra Sturlusyni sem talinn er hafa ritað margar af dýrmætustu frásögnum sem til eru um forna siði og frækna kappa. Snorri lét útbúa Snorralaug sér til ánægju og yndisauka.

Mynd: Snorralaug í Reykholti.

Snorralaug í Reykholti er ein fjögurra náttúrulauga frá miðöldum sem eru nothæfar enn þann dag í dag. Hún er að öllu leyti gerð úr höggnum steinum sem er hugmynd sem við nýttum okkur í Sky Lagoon. Kalda kerið er annað skrefið í unaðslegri og endurnærandi sjö skrefa meðferð sem ber heitið Sky Ritúal.

Frekari fróðleikur

Á ysta odda Kársness í Kópavogi

Þú finnur okkur þar sem himinn og haf renna saman

Hver erum við?

back to top